1. gr. Heiti félagsins

Félagið heitir Félag um Stafrænt Frelsi á Íslandi og er skammstafað FSFÍ.

2. gr. Lögheimili og varnarþing

Lögheimili félagsins er lögheimili formanneskju. Varnarþing félagsins er í Reykjavík.

3. gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að varðveita og efla stafrænt frelsi á Íslandi eftir því sem félagið telur þörf á. Honum skal náð með uppbyggingu samfélags sem tekur ábyrgð á verkinu.

4. gr. Aðild

Rétt til aðildar eiga þeir einstaklingar sem vilja styðja félagið í að ná tilgangi sínum. Gjaldkeri skjal sjá um að viðhalda félagatali.

5. gr. Starfstímabil

Starfstímabil félagsins er almanaksárið.

6. gr. Aðalfundur

Aðalfundur skal haldinn í febrúar eða mars á hverju ári. Til hans skal boðað með að minnsta kosti sjö sólarhringa fyrirvara með sniglapósti til allra félaga þess, eða með tilkynningu á tilkynningarpóstlista og umræðupóstlista félagsins. Aðalfundur er eingöngu löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála. Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi dagskráratriði:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Kosning stjórnar
  6. Önnur mál

7. gr. Félagsfundir

Félagsfundir eru ályktunarbærir séu þeir boðaðir með að minnsta kosti tveggja sólarhringa fyrirvara á tilkynningarpóstlista félagsins. Þar má taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir félagið en þær skal leggja fram til lokaafgreiðslu með rafrænni kosningu með sama hætti og lagabreytingar.

8. gr. Svið og deildir

Ályktunarbærir félagsfundir geta ályktað um stofnun, breytingu og/eða niðurlagningu sviða og jafnframt deilda. Skal starfsemi sviða og deilda innan félagsins samræmast tilgangi félagsins. Deildir skulu að öðru leiti vera fjárhagslega og stjórnunarlega sjálfstæðar í störfum sínum. Þær skulu að jafnaði heyra undir eitt ákveðið svið félagsins. Ekki skal krafist aðildar að félaginu til þess að taka þátt í starfi eða ákvarðanatöku innan deilda.

9. gr. Stjórn

Þrír einstaklingar skulu kjörnir í stjórn félagsins. Meðal þeirra skal einn vera formanneskja og einn gjaldkeri að lögum. Stjórn skal skipta með sér verkum. Firmaritun og prókúra er í höndum meirihluta stjórnar. Ákvarðanir stjórnar skulu teknar í samráði við skráða félaga. Skal hún framkvæma vilja ályktunarbærra félagsfunda, svo framarlega sem þær ákvarðanir séu staðfestar í rafrænum kosningum og að þær standist lög félagsins sem og landslög. Fundargerðir stjórnarfunda skulu vera aðgengilegar félagsmönnum að loknum fundi.

Löglega boðaðir ályktunarbærir félagsfundir geta tekið ákvarðanir er lúta að skipulagi stjórnar félagsins, hvort sem um sé að ræða stækkun hennar, fækkun eða kosningu nýrra manneskju í stað sitjandi stjórnaraðila. Til að slík tillaga sé ályktunarbær skal hennar getið í fundarboði félagsfundarins og stjórn félagsins gefið færi á að veita sitt álit á henni. Þá skal tillagan uppfylla kröfur landslaga um skipan stjórna skráðra félagasamtaka. Lokaafgreiðsla skal fara fram með rafrænni kosningu með sama hætti og lagabreytingar, sé hún samþykkt á ályktunarbærum félagsfundi.

10. gr. Fjáröflun

Félagið getur aflað fjárs með félagsgjöldum, gegnum styrki og sölu smámuna og/eða minniháttar þjónustu. Félagsgjöld skulu vera tvö þúsund krónur á ári og greiðsla þeirra valkvæm.

11. gr. Rekstrarafgangur eða hagnaður

Sé rekstrarafgangur eða hagnaður af starfsemi félagsins skal hann færður yfir á næsta starfstímabil.

12. gr. Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins getur eingöngu verið borin upp á ályktunarbærum félagsfundi og þarf 2/3 hluti mættra félaga að samþykkja tillöguna til að hún hljóti brautargengi. Því næst skal ákvörðunin sett í rafræna kosningu með sama hætti og lagabreytingar. Niðurstöður skulu tilkynntar á aðalfundi og taka gildi frá og með þeim fundi.

Í fundarboði félagsfundar skal tillaga um slit félagsins vera borin fram til þess að félagsfundur sé ályktunarbær um hana. Í fundarboði aðalfundar skal tillagan og rafræna kosningin kynnt. Kosning um slit félagsins skal hefjast fyrir sendingu fundarboðs aðalfundar og ljúka einum sólarhring fyrir aðalfund.

Með ákvörðun um slit félagsins skal fé þess renna til félags sem hefur sambærilegan tilgang og FSFÍ, ellegar til varðveislu íslenska ríkisins þar til sambærilegt félag gerir tilkall til sjóðsins.

13. gr. Lagabreytingar

Breyta má lögum félagsins á löglegum aðalfundi og skulu lagabreytingatillögur þá fylgja fundarboði.

Einnig má breyta lögum félagsins í rafrænni kosningu samkvæmt beiðni ályktunarbærs félagsfundar. Skulu tillögurnar þá lagðar fram til staðfestingar eða synjunar með leynilegri rafrænni kosningu meðal allra félaga og ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða. Skal sú kosning standa í að minnsta kosti sólarhring eftir að hún var tilkynnt en að jafnaði skal hún standa í fjóra sólarhringa.

Atkvæðarétt í lokaafgreiðslu lagabreytinga eða gjörninga sem fela í sér skuldbindingar að landslögum hafa eingöngu skráðir félagar.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi FSFÍ árið 2013.

Dagsetning: 22.06.2013

Leave a Reply

  • (will not be published)