Posted by & filed under Fréttir, Frjáls hugbúnaður, Meginslá.

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 11. desember 2009 sem svar við frétt sem birtist tveimur dögum áður.

Sparnaður í frjálsri upplýsingatækni

Tryggvi Björgvinsson skrifar um notkun hugbúnaðar hjá hinu opinbera.

Í Fréttablaðinu miðvikudaginn 9. desember birtist grein um mögulega notkun frjáls og opins hugbúnaðar hjá ríkinu og sparnað sem af því hlýst. Greinina má rekja til fyrirspurnar sem Birgitta Jónsdóttir flutti í þinginu en í greinarbútnum er einnig rætt við Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóra Microsoft á Íslandi. Halldór kallar eftir nánari upplýsingum um málið enda rétt hjá honum að þörf sé á ítarlegri greiningu. Fjármálaráðuneytið hefur, samkvæmt þingskjalinu og fréttinni, nú þegar áttað sig á þörfinni og vinnur að ítarlegri kostnaðargreiningu.

Niðurstaða þeirrar greiningar ásamt vinnu ráðuneyta um kosti og galla frjáls og opins hugbúnaðar verður forvitnilegt og gott innlegg inn í þessa umræðu.

Aftur á móti óska ég þá eftir ítarlegri upplýsingum frá Halldóri. Hann segir að leyfisgjöld séu samkvæmt þeirra útreikningi að meðaltali 7,5 prósent af heildarkostnaði. Það er eflaust rétt í einhverjum tilfellum þó svo að rannsókn frá árinu 2005 á rafrænni stjórnsýslu Evrópuríkja, rannsókn sem var fjármögnuð af Evrópusambandinu, sýndi fram á að um 20 prósent af heildarkostnaði væru leyfiskostnaður. Því má ætla að rafræn stjórnsýsla á Íslandi geti sparað allt að 20 prósent með því að nota frjálsan og opinn hugbúnað. Rannsóknin tekur það fram að þessi hlutur sé mun hærri en 5-10 prósenta hluturinn sem áætlanir um eignarhaldskostnað gefa til kynna og Halldór virðist vísa til. Rannsóknin, sem byggist á mælingum frekar en áætlunum, tekur það aftur á móti fram fram að 20 prósenta hluturinn samræmist niðurstöðum annarra rannsókna.

Halldór nefnir einnig réttilega að mestur kostnaður sé í rekstri, innleiðingu og ýmsum verkefnum og véfengir sparnað Þjóðleikhússins sem nefndur er bæði í þingskjalinu og fréttinni. Ég er ekki í stöðu til að tjá mig um mál Þjóðleikhússins og samning þess við innlent hugbúnaðarfyrirtæki um þjónustu en í raun má búast við, samkvæmt fyrrgreindri rannsókn á stjórnvöldum Evrópuríkja, að rekstrarkostnaðurinn muni lækka við notkun frjáls og opins hugbúnaðar.

Þá ályktun má draga af niðurstöðum rannsóknarinnar sem segja að umsjónarmenn frjálsra og opinna hugbúnaðarkerfa anni um 35 prósentum fleiri tölvum en umsjónarmenn ófrjálsra hugbúnaðarkerfa.

Raunveruleg dæmi styðja rannsóknirnar. Franska lögreglan, sem hefur í heildina um 90 þúsund tölvur, ákvað árið 2004 að hefja innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði og hefur í dag, að eigin sögn, sparað í kringum 50 milljónir evra. Samkeppnin mun snúast um innlenda þjónustu á frjálsum hugbúnaði, sem er öllum aðgengilegur, og lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn mun knýja fram lægri þjónustu- og innleiðingarkostnað.

Rannsóknir og raunveruleg dæmi sýna að á endanum náist fram sparnaður.

Þeim sparnaði er náð að hluta til vegna lægri leyfisgjalda þar sem frjáls og opinn hugbúnaður er annað hvort ókeypis eða ódýrari, að hluta til sökum lægri þjónustukostnaðar þar sem innlend þekking myndast og umsjónarmenn tölvukerfa geta annað fleiri vélum. Auk þess má einnig búast við lægri vélbúnaðarkostnaði því samkvæmt svari fjármálaráðherra, með tilvitnun í Verkmenntaskólann á Akureyri, er hægt að endurnýta eldri tölvur og nýta vélbúnaðinn lengur. Á heildina litið er frjáls hugbúnaður fýsilegri kostur núna og í framtíðinni.

Það er ódýrara að vera sjálfbær.

Posted by & filed under Fréttir.

Stjórn FSFÍ er í skýjunum eftir frábæra ráðstefnu í gær og vill þakka eftirfarandi aðilum fyrir aðstoð og liðlegheit í tengslum við nýafstaðna ráðstefnu um stafrænt frelsi 2009 (Reykjavík Digital Freedoms Conference 2009):

 • Allir fyrirlesararnir sem komu fram á ráðstefnunni
 • Háskólinn í Reykjavík fyrir húsnæði og samvinnu
 • Prentlausnir ehf. fyrir frábæra þjónustu og afslátt
 • Merkt ehf. fyrir frábæra þjónustu og afslátt af bolum
 • Tölvulistinn ehf.fyrir stuðning við dreifingu frjálsrar tónlistar á geisladiskum
 • Frjálsa samfélagið á Íslandi fyrir alla hjálpina

Að auki viljum við þakka öllum ráðstefnugestum fyrir komuna og bjóða nýja meðlimi velkomna í félagið. Þið megið búast við fréttum gegnum póstfangið fsfi@fsfi.is og öllum meðlimum er auðvitað velkomið að nýta póstlistann sem vettvang til umræðu um málefni stafræns frelsis.

Fyrir þá sem notfærðu sér bolagerðina okkar, þá viljum við minna fólk á að “baka” bolinn við 150 gráðu hita í u.þ.b. 3 mínútur á blæstri, svo málningin haldist í þvotti.

Posted by & filed under Ráðstefna um stafrænt frelsi.

Þann 1. desember næstkomandi stendur FSFÍ fyrir annarri árlegri ráðstefnu sinni um stafrænt frelsi, í Háskólanum í Reykjavík að Ofanleiti 2. Á ráðstefnunni í fyrra voru aðalfyrirlesararnir þeir Eben Moglen og John Perry Barlow en í ár hefur FSFÍ boðið hingað Eric F. Saltzman frá Creative Commons og Daniel Schmitt frá WikiLeaks. Auk þeirra verður fjöldi innlendra fyrirlesara með erindi og kynningar.

Dagskrá

09:00 Skráning og kaffi

10:00 Setning – Tryggvi Björgvinsson, formaður FSFÍ
10:20
Eric F. Saltzman, Creative Commons
11:20
Harald Gunnar Halldórsson, lögfræðingur
11:40
Kristín Atladóttir, Doktorsnemi við Háskóla Íslands

12:00 Hádegismatur (á eigin vegum)

12:45 Sveinn í Felli, OpenOffice.is
13:05 Tómas Edwardsson, Opin kerfi
13:25 Ólafur Garðarsson, Íkon
13:45 Pétur Ágústsson, TM Software
14:05 Ólafur Sigurvinsson, Kerfisþróun

14:25 Eiríkur Hrafnsson, Idega

14:45 Kaffihlé

15:00 Daniel Schmitt, WikiLeaks
16:00 Birgitta Jónsdóttir, þingmaður

16:20 Ian Watson, Háskólinn á Bifröst
16:40 Hjálmar Gíslason, DataMarket

17:00 Frelsisverðlaun FSFÍ 2009 og Ráðstefnuslit

Skráðu þig í gegnum Facebook hér

eða skráðu þig hér:

Um fyrirlesarana

Eric F. Saltzman
Creative Commons

Tilgangur Creative Commons er að búa til sameign til sköpunar, það er samansafn verka sem leyfir og hvetur fólk til frekari sköpunar og að veita neytendum aukið aðgengi að verkunum með því að hvetja alla til að deila þeim með sér. Í dag eru Creative Commons leyfin notuð af mörgum listamönnum, útgefendum og neytendum í samfélagi sem færir neytendur nær listamönnum. Creative Commons samtökin voru stofnuð árið 2001 og árið 2008 var talið að um 130 milljónir verka væru gefin út undir Creative Commons og tilheyrðu þar með skapandi sameigninni. Eric F. Saltzman er stjórnarmeðlimur og meðstofnandi Creative Commons samtakanna.

Harald Gunnar Halldórsson
Lögfræðingur

Harald Gunnar Halldórsson er lögfræðingur og meistaranemi við lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur nýlega unnið með Félagi um stafrænt frelsi á Íslandi varðandi endurskoðun íslensku höfundalaganna sem menntamálaráðuneytið hefur hafið. Harald Gunnar hefur kynnt sér Creative Commons verkefnið til hlítar og unnið með FSFÍ í tengslum við notkun Creative Commons leyfanna í íslensku lagaumhverfi.

Kristín Atladóttir
Doktorsnemi við Háskóla Íslands

Kristín er að vinna doktorsverkefni við Háskóla Íslands á sviði menningarhagfræði. Markmið verkefnisins er að kanna hvort hagrænar forsendur höfundaréttarlaganna haldi, eftir breytingar sem orðið hafa á lagarammanum undanfarna áratugi, og hvort hagsmunir fyrirtækja sem framleiða höfundarréttarvarið efni hafi styrkst umfram hagsmuni skapenda og almennings. Undanfarið hefur Kristín verið að skoða viðbrögð tónlistariðnaðarins við breyttri neytendahegðun í kjölfar stafrænnar miðlunar á tónlist.

Sveinn í Felli
OpenOffice.is

Sveinn í Felli er í forsvari fyrir hóp sem vinnur að upptöku, þýðingu og kennslu á frjálsa og opna skrifstofuvöndlinum OpenOffice.org. Í sumar vann hann ásamt kennurum við Verkmenntaskólann á Akureyri að þýðingu kennslubókar um notkun skrifstofuvöndulsins sem er aðgengileg á vefslóðinni http://www.openoffice.is/. Hann hefur einnig sett á laggirnar póstlista fyrir notkun og þýðingarstarf OpenOffice.org en þýðing OpenOffice.org, sem er öll unnin í sjálfboðaliðavinnu, er í dag þannig að 40% notendaviðmóts skrifstofuvöndulsins hefur verið þýtt.

Tómas Edwardsson
Opin kerfi

Íslenska upplýsingafyrirtækið Opin kerfi bauð fyrst upp á stuðning við GNU/Linux stýrikerfið árið 1996 og hefur síðan þá haft innan sinna vébanda fjölda sérfræðinga í innleiðingu og ráðgjöf á frjálsum og opnum hugbúnaði. Meðal innleiðingarverkefna frjáls og opins hugbúnaðar í íslenskum skólum sem Opin kerfi hafa staðið fyrir má nefna Ubuntu útstöðvar hjá Lækjarskóla í Hafnarfirði, Moodle kennsluumsjónarkerfið í Menntaskólanum á Ísafirði og Asterisk símalausnir fyrir nýstofnaðan Framhaldsskóla Mosfellsbæjar.

Ólafur Garðarsson
Íkon

Íkon hefur á undanförnum árum unnið að innleiðingu frjáls hugbúnaðar á Íslandi. Fyrirtækið hefur meðal annars sett upp GNU/Linux útstöðvar í Farfuglaheimilinu í Laugardal og hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. Íkon rekur einnig vefhýsingarþjónustu undir vörumerkinu Eðalnet en öll vefhýsing þar notast við frjálsan og opinn hugbúnað. Að undanförnu hefur Íkon unnið þróun í kringum hugbúnaðarveitu sem gefur notendum möguleika á að nálgast hugbúnað eins og viðskiptakerfi yfir Netið óháð stýrikerfi.

Pétur Ágústsson
TM Software

Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software hefur áralanga reynslu á sviði frjáls og opins hugbúnaðar. Fyrirtækið býður upp á ráðgjöf, þarfagreiningu og þjónustu við innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði. Sérfræðiþekking TM Software snýr að miklu leyti að frjálsum hugbúnaði fyrir viðskiptalífið eins og Jasper viðskiptagreindarhugbúnaðinum, Orbeon formasmiðinum, Alfresco skjalastjórnunarkerfinu og Mule skeytamiðlaranum ásamt fjölda annarra frjálsra lausna. Auk þess hafa forritarar TM Software mikla reynslu í þróun frjáls og opins hugbúnaðar.

Ólafur Sigurvinsson
Kerfisþróun

Aðalstarfsemi íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Kerfisþróunar er þróun bókhalds- og upplýsingahugbúnaðarins Stólpa. Fyrirtækið hefur tengt þeirri þróun fært sig sífellt meira inn á svið frjáls og opins hugbúnaðar og hefur meðal annars í dag tengt skrifstofuvöndulinn OpenOffice.org, viðskiptavenslahugbúnaðinn SugarCRM, símkerfið Asterisk og skjalastjórnunarkerfið Alfresco við Stólpa. Í sumar sá Kerfisþróun um innleiðingu frjáls hugbúnaðar í notendaumhverfi Þjóðleikhússins, sem fyrir vikið leiddi til 75% sparnaðar í útgjöldum leikhússins vegna upplýsingatækni.

Eiríkur Hrafnsson
IOS / Idega

Íslenski vefhugbúnaðurinn Idega var í mörg ár þróaður sem séreignarhugbúnaður af samnefndu fyrirtæki. Í ár ákváðu Idega-menn að frelsa Idega með því að gefa hugbúnaðinn út undir frjálsa leyfinu GNU GPL (útgáfu 3). Samhliða því skipti fyrirtækið um nafn og heitir í dag IOS (sem stendur fyrir Idega Open Source). IOS er aðalþróunaraðili Idega og veitir ráðgjöf og þjónustu varðandi notkun, uppsetningu, viðhald og þróun hugbúnaðarins.

Daniel Schmitt
WikiLeaks

WikiLeaks er verkefni sem stefnir að því að gera hverjum sem er kleift að leka trúnaðargögnum til almennings. Á síðustu tveimur árum hefur verkefnið lekið yfir milljón skjölum sem ekki voru ætluð til almennrar birtingar – þar á meðal glærusýningu af stjórnarfundi Kaupþings skömmu fyrir bankahrun, sem olli talsverðu fjaðrafoki í hérlendum fjölmiðlum. Meðal annarra markverðra skjala sem WikiLeaks hefur birt má nefna meðlimaskrá British National Party (í tvígang), skýrslu um mengunarslys á Fílabeinsströndinni sem unnin var fyrir Trafigura, uppköst að ACTA-sáttmálanum, og fleira í þeim dúr. Daniel Schmitt er talsmaður fyrir WikiLeaks.

Birgitta Jónsdóttir
þingmaður

Birgitta Jónsdóttir er þingflokksformaður Hreyfingarinnar, og settist á þing fyrr á þessu ári. Hún hefur meðal annars lagt fram fyrirspurn á þingi um útgjöld ríkisins vegna hugbúnarkaupa og er meðal flutningsmanna þingsályktunartillögu um opnun gagnasafna á vegum ríkisins. Stafrænt frelsi er þannig komið á dagskrá stjórnmálanna hér á landi og gagnsæi í stjórnarháttum er meginmarkmið þeirra sem að því standa.

Ian Watson
Háskólinn á Bifröst

Ian Watson er lektor við félagsfræðideild Háskólans á Bifröst en hefur einnig kennt upplýsingahönnun og leturfræði við hönnunarbraut Listaháskóla Íslands og tekið þátt í Reykjavíkurakademíunni. Við Háskólann á Bifröst hefur Ian Watson haldið utan um og verið ritstjóri Bifröst Journal of Social Science sem er íslenskt opið vísindarit, það er vísindarit með opinn aðgang að fræðigreinunum (Open Access Journal), gefið út undir Creative Commons.

Hjálmar Gíslason
DataMarket

Hjálmar Gíslason er raðfrumkvöðull sem nú sinnir fjórða fyrirtæki sínu, DataMarket ehf., sem sérhæfir sig í öflun og miðlun upplýsinga úr tölvutækum gagnagrunnum. Annað áhugamál hans er opnun gagnagrunna, og hann er í hópi þeirra sem standa að opingogn.net, skrásetning á gagnasöfnum opinberra aðila og aðgengis að þeim. Fyrir hönd Já situr Hjálmar einnig í dómnefnd keppninnar Þú átt orðið sem snýr að notkun gagna úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

FSFÍ þakkar Háskólanum í Reykjavík.

Einkennismerki Háskólans í Reykjavík

Posted by & filed under Fjáröflun, Ráðstefna um stafrænt frelsi.

Kæru meðlimir!

Nú nálgast óðfluga ráðstefna FSFÍ fyrir árið 2009. Stjórnin hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur við að setja saman öfluga dagskrá sem á upp á pallborðið hjá Íslendingum öllum við þær erfiðu aðstæður sem við stríðum nú við.

Aðalfyrirlesarar, eins og kemur fram á vefsíðu FSFÍ verða þeir Eric F. Saltzman, einn stofnenda Creative Commons, og Daniel Schmitt, talsmaður WikiLeaks.

Okkur vantar fólk sem hefur tíma og áhuga á að taka þátt í að gera atburðinn að veruleika!

Ef þú hefur einhvern af eftirfarandi hæfileikum:

 • Myndvinnsla (klippingar og upptökur)
 • Þýðingar (t.d. kynningarefni úr ensku)
 • Hönnun
 • Orðfærni (skrifa kynningarefni)
 • Fjáröflun (útvega styrki og stuðning)
 • Óbilandi áhuga

Endilega verið í sambandi við stjorn@fsfi.is

Einnig viljum við vekja athygli á því að við hvikum ekki frá því að ráðstefnur félagsins séu lausar við aðgangseyri og öllum opnar, en þó fylgir svona atburðum alltaf viss kostnaður og FSFÍ er rekið á sjálfboðavinnu og því ávallt frekar félítið. Við viljum því biðja alla sem eiga kannski frekar fé en tíma aflögu, að íhuga að leggja okkur lið með beinu framlagi.

Reikningur: 526-26-3638
Kennitala félagsins er: 470308-1170

Allir styrktaraðilar verða nafngreindir, ef þeir óska eftir því á styrktaraðilasíðu FSFÍ.

Með von um jákvæð viðbrögð og sköpunarvilja!

Stjórn Félags um stafrænt frelsi á Íslandi

Posted by & filed under Fréttir, Frjálst samfélag, Ráðstefna um stafrænt frelsi, Réttur neytanda.

Frá stofnun hefur meginþorri starfsemi FSFÍ snúist um notkun frjáls hugbúnaðar. Félagið á rætur sínar að rekja til áhugamannafélags um frjálsan hugbúnað og félagið hefur staðið fyrir nokkrum fyrirlestrum um frjálsan hugbúnað. Annað stórt viðfangsefni sem FSFÍ berst fyrir og vill kynna er frjáls menning, þá  sérstaklega uppbygging slíkrar menningar með notkun leyfa á við Creative Commons. Frjáls hugbúnaður og frjáls menning eru lykilatriði í því að tryggja stafrænt frelsi fólks.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku starfa samtök sem ásamt öðrum voru hvatning til stofnunar FSFÍ:  Electronic Frontier Foundation. EFF fjalla um pólitísk og lagaleg deilumál sem snúa að málfrelsi,  persónuvernd og öðrum almennum þegnréttindum í netheimum. Ólíkt starfi Free Software Foundation og Creative Commons, sem miða að því að breiða út leyfisskilmála sína, þjónar EFF kynningar- og varnarhlutverki gegn árásum. FSFÍ hefur hingað til ekki haft burði til þess að taka varnarhlutverkið að sér, en við vonumst til að svo geti orðið að lokum.

Það kann að vera erfitt að sjá skyldleikann milli „ókeypis forrita“ og lögsókna fyrir ólöglegar hleranir.  Tengslin eru samt til staðar. Eins og við þreytumst aldrei á að útskýra felst gildi frjáls hugbúnaðar ekki í sparnaði: Það sem skiptir mestu máli er að frjáls hugbúnaður gerir notendanum kleift að skilja kerfið sem stjórnar honum. Kerfið heldur engu leyndu fyrir notendum sínum. Barátta EFF gegn ólöglegum hlerunum AT&T í Bandaríkjunum er af svipuðum meiði. Þeir vilja meina að AT&T hafi ekki verið heimilt að leyna almenning því hversu auðvelt var fyrir löggæslustofnanir þar vestra að láta hlera símalínur – jafnvel án dómsúrskurðar. Engin leyndarmál. Í upplýsingasamfélaginu eru þetta vígorðin sem skekja allt. Líka á litla Íslandi.

Í um það bil ár höfum við heyrt alls konar fólk annað hvort krefjast þess eða staðhæfa að „allt verði uppi á borðinu“. Engu að síður fara enn fram litlir og lokaðir fundir, ríkisstjórn skipar þingmönnum enn fyrir verkum, og bankaleyndin margfræga er enn heilög. Eða hvað? Í ágústbyrjun tóku fréttamenn eftir því að WikiLeaks, vefsíða sem sérhæfir sig í að opinbera gögn sem aðrir vilja ekki að komi fyrir sjónir almennings, hafði komist yfir áhugaverðan glærupakka frá Kaupþingi, sem hafði verið gerður skömmu fyrir hrun. Kaupþing hafði sömuleiðis tekið eftir því, og óskaði eftir því að hann yrði fjarlægður. Við því var ekki orðið, heldur var beiðnin sjálf einnig birt. Engin leyndarmál. Ísland skalf þegar lögbann var sett á fréttaflutning RÚV og WikiLeaks var á allra vörum. Að lokum laut Kaupþing í lægra haldi og féll frá lögbannskröfu sinni. Hugmyndafræði WikiLeaks, að allt eigi að vera uppi á borðum og að öllum eigi að vera gert kleift að skilja kerfið sem stjórnar þeim, hafði betur í þessu tilfelli. Þessari hugmyndafræði deilum við í FSFÍ, þó við beitum öðrum aðferðum.

Það er ekki að ástæðulausu sem við rekjum þetta mál hér og nú. FSFÍ hefur ákveðið að halda ráðstefnu um stafrænt frelsi í annað sinn. Í fyrra snerist ráðstefnan að stórum hluta um frjálsan hugbúnað en  þangað kom einnig John Perry Barlow, einn af stofnendum Electronic Frontier Foundation. Á þessari  annarri ráðstefnu, sem FSFÍ hefur ákveðið að gera að árlegum viðburði, á fullveldisdegi Íslands, 1.  desember, höfum við ákveðið að sýna landsmönnum fleiri hliðar stafræns frelsis.

FSFÍ hefur um nokkurt skeið unnið að ráðstefnunni sem verður haldin í Háskólanum í Reykjavík, 1. desember næstkomandi. Félagið hefur boðið fulltrúum WikiLeaks að halda fyrirlestur um verkefnið og viðkomandi málefni á ráðstefnunni. Félagið hefur einnig boðið fulltrúum Creative Commons til að ræða um mikilvægi frjálsrar menningar. Báðir aðilar hafa þegið boðið og FSFÍ kynnir því með stolti  aðalfyrirlesara Ráðstefnu um stafrænt frelsi 2009: Daniel Schmitt, talsmann WikiLeaks, og Eric F. Saltzman, einn af meðstofnendum Creative Commons samtakanna.

FSFÍ mun kynna ráðstefnuna betur á næstu dögum.

Posted by & filed under Fréttir.

Félag um stafrænt frelsi á Íslandi vill koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri um breytingar sem hafa orðið á stjórn félagsins.

Hallgrímur H. Gunnarsson hefur stigið niður sem stjórnarmeðlimur Félags um stafrænt frelsi á Íslandi. Í stað hans hefur stjórn FSFÍ ákveðið að r ákveðið að leita til aðila sem hafa áður starfað með stjórninni og stjórnin treystir. Þessir nýju stjórnarmeðlimir FSFÍ eru Flóki Ásgeirsson, Herbert Snorrason og Jóhann Friðriksson.

Flóki Ásgeirsson er einn af upphaflegum stofnendum RGLUG og laganemi við Háskóla Íslands. Herbert Snorrason er áhugamaður um stjórnmál og sagnfræðinemi við Háskóla Íslands. Jóhann Friðriksson er áhugamaður um frjálsan og opinn hugbúnað og vinnur fyrir upplýsingatæknifyrirtækið Skýrr. Það er vert að taka það fram að vinnuveitandi Jóhanns mun ekki hafa áhrif á starfsemi FSFÍ á neinn hátt annan en að mögulega veita félaginu betri innsýn inn í íslenskt atvinnulíf.

Við óskum Flóka, Herberti og Jóhanni til hamingju með stjórnarstöðuna.

Posted by & filed under Frjáls hugbúnaður, Frjálst samfélag, Meginslá.

Upphafið eða um það bil

Á svipuðum tíma og Richard Stallman byrjaði á GNU verkefninu, skilgreindi frjálsan hugbúnað og stofnaði Frjálsu hugbúnaðarsamtökin byrjaði jarðeðlisfræðineminn Einar Kjartansson að vinna að fyrstu útgáfu hugbúnaðar til að greina jarðskjálftabylgjur. Hugbúnaðurinn, sem hlaut nafnið Seismic Unix, lifir mjög góðu lífi í fræðiheiminum og hefur hlotið nokkur verðlaun í gegnum tíðina. Notkun og áframhaldandi þróun hugbúnaðarins er ekki háð mörgum skilmálum, eitthvað sem tíðkaðist á uppvaxtarárum upplýsingatækninnar og svipar mjög til hugmyndafræði frjáls hugbúnaðar, sem hefur verið Seismic Unix mjög til framdráttar. Síðan þá hefur Einar unnið í öðrum rannsóknarverkefnum en mikilvægast af öllu fyrir framgöngu frjáls hugbúnaðar á Íslandi hefur Einar eignast börn.

Bjarni Rúnar, elsti sonur Einars, hefur verið einn ötulasti baráttumaður frjáls hugbúnaðar á Íslandi. Bjarni Rúnar byrjaði að vinna með tölvur í kringum 10 ára aldurinn og árið 1992, þegar hann var sextán ára, setti hann forrit sem hann hafði búið til, völundarhússskaparann maze, á Netið. Maze er líklegast fyrsta forritið sem Bjarni Rúnar setti á Netið og leyfði heiminum að sjá. Bjarni Rúnar sendi maze inn á USENET þræðina alt.sources og comp.lang.c og þrátt fyrir að hann hafi ekki gefið það út undir neinu sérstöku hugbúnaðarleyfi að þá er það augljóst að hann ætlaði sér ekki að sitja einn á sköpunarverkinu. Í USENET póstinum segir Bjarni Rúnar:

,,I am not pleased  with everything, feel free to modify and replace whatever needs it.

If anybody loves it to pieces mail would be welcome.. Also I would kinda like to keep copies of any major changes to the code.“

Gjafmildi Bjarna Rúnars, eins sjálfsagt og honum eflaust fannst það, átti eftir að verða til þess að nokkrum árum seinna varð Bjarni Rúnar í fararbroddi innleiðingar frjáls hugbúnaðar á Íslandi.

Read more »

Posted by & filed under Einkaleyfi, Frjálst samfélag, Höfundarréttur, Meginslá, Opið aðgengi, Réttur neytanda.

Margir hafa aldrei opnað húddið á bíl. Færri hafa opnað tölvukassa. Mjög fáir hafa tekið farsímann sinn í sundur. Svartir kassar eru allsstaðar í umhverfinu okkar, fyrirbæri sem virka án þess að uppljóstra allt of mikið um hvernig þau virka, og vel flestir eru bara sáttir við að þurfa ekki að velta fyrir sér innviðunum. Meðan stjórntækin svara og virknin er í samræmi við væntingar eru flestir ánægðir.

En svo eru hinir. Fiktararnir. Krakkarnir sem rifu brauðristina í sundur, eða örbylgjuofninn. Sem smíðuðu vélmenni úr legókubbum. Fólkið sem fæst ekki til að koma heim í mat, er alltaf úti í bílskúr, eða í tölvuherberginu, eða einhversstaðar að nærast á tækni. Þetta fólk er allsstaðar í kringum okkur. Píparinn, smiðurinn, símvirkinn. Frændi þinn sem kann að gera við tölvur og frænka þín sem kann að gera við bíla. Við þörfnumst þessa fólks.

Án þeirra myndi tæknin okkar ekki virka. Hver myndi slá rafmagninu inn aftur, eða laga sturtuhausinn sem kemur aldrei heitt vatn út úr? Hver myndi fara upp á þak og gera við það, eða halda símstöðvunum gangandi? Hver myndi keyra vélarnar í skipunum og flugvélunum, sjá til þess að posarnir virki, og að ljósastaurarnir kveiki á sér? Líttu í kringum þig. Hvað gæti bilað?

En þrátt fyrir allt þetta fólk sem heldur tækninni okkar gangandi virðumst við taka svörtum kössum án nokkurs fyrirvara. Í gegnum tíðina hafa svörtu kassarnir jú verið opnanlegir, ef eitthvað er að, en nú er það að breytast. Mörg fyrirtæki eru byrjuð að framleiða tækni sem er ekki hægt að taka í sundur, sem er ekki hægt að rýna í og fikta með. Þessi fyrirtæki bera fyrir sér hugverkarétt og skaðabótaábyrgð og allskonar lagaflækjur þrátt fyrir að þær stangist á við mannlegt eðli.

Alveg frá því að maðurinn kom niður úr trjánum í apalíki hefur hann viljað skilja verkfærin sín. Meðan um var að ræða spýtur og steina var það lítið mál. Það var engin skaðabótaábyrgð á spjótum, og enginn hugverkaréttur varði plóginn. Eftir því sem tæknin okkar verður flóknari verður brýnna að til sé fólk sem skilur tæknina út og inn, en lagaumhverfið okkar stendur í vegi fyrir því að fólk geti fiktað, og framleiðendur tækninnar finna stöðugt nýjar leiðir til að koma í veg fyrir að fólk geti tekið hlutina í sundur.

Þegar strákurinn í Ástralíu reyndi að taka iPodinn sinn í sundur og skoða hvernig hann virkaði fann hann engar skrúfur, enga leið til að taka hann í sundur, þannig að hann rak skrúfjárn inn í hliðina á tækið og beint inn í rafhlöðuna, sem sprakk framan í hann. Og lögfræðingar Apple spurðu: Skaðabótaábyrgð hvað?

Og þegar strákurinn í Noregi fann leið til að lesa DVD diska án þess að nota lykil frá vottuðum framleiðanda, og gerði milljónum manna mögulegt að horfa á myndirnar sem þau höfðu keypt á hvaða tölvukerfi sem þau vildu, þá birtust lögfræðingarnir frá DVD CCA og heimtuðu lögbann. Og Jon spurði: Hugverkaréttur hvað?

Þetta er það sem gerist þegar fólk fiktar nú til dags. Það þarf fyrst að brjóta lása, og svo að brjóta lög. Ef það hefur heppnina með sér sleppur það óskaðað frá því með nýja þekkingu á virkni heimsins, en allt of oft núorðið er það bara ekki hægt.

Mannkynið hefur ríkt fiktaraeðli. Við erum öll fiktarar inn við beinið. Og mannlegt eðli er miklu eldra en hagkerfið, miklu eldra en hugverkaréttur. Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um rétt okkar til að fikta. Rétt okkar til að skilja.

Posted by & filed under Fréttir, Frjálst samfélag, Höfundarréttur.

Næstkomandi sunnudag, 27. september, verður RIP!: A Remix Manifesto sýnd í síðasta skiptið á Reykjavík International Film Festival (RIFF). FSFÍ hefur áður hvatt meðlimi til þess að mæta á RIP!: A Remix Manifesto og ef þið hafið ekki séð myndina í kvikmyndahúsi nú þegar að þá er síðasta tækifærið á sunnudaginn. FSFÍ hefur frétt það að leikstjóri myndarinnar, Brett Gaylor, muni mæta á sýninguna og sitja fyrir svörum að sýningu lokinni.

Af þeirri ástæðu vill FSFÍ hvetja alla til að fjölmenna á lokasýningu myndarinnar. Fyllum salinn og fögnum boðskapi myndarinnar: Menning okkar þarf á stafrænu frelsi að halda. Nýtum tækifærið til að spyrja Gaylor, sem hefur gefið myndina út undir Creative Commons Attribution Share-Alike Non-Commercial leyfi, spurninga um myndina, um leyfið til að endurblanda myndina og um stafrænt frelsi almennt.

Þið megið einnig endilega kjósa í áhorfendaverðlaunakosningu RIFF og ef RIP!: A Remix Manifesto er að ykkar mati besta mynd hátíðarinnar þá auðvitað kjósið þið hana.

Síðasta sýning RIP!: A Remix Manifesto verður í Háskólabíói, sunnudaginn 27. september kl. 18:00.

ATH: Leiðréttur sýningartími

Posted by & filed under Fréttir.

Í tilefni af Software Freedom Day 2009 (Laugardagurinn 19. September) hefur FSFÍ skipulagt samkomu. Við höfum frátekið sal á Kaffi Zimsen, frá 18 – 22, þar sem við bjóðum öllum áhangendum og áhugamönnum um stafrænt frelsi, frjálsan hugbúnað, frjálsa menningu og (ef einhverjar) aðrar hliðar frjáls samfélags að koma og halda uppá daginn með okkur.

Til stendur að spila frjálsa tónlist, mögulega með áherslu á GirlTalk hljómsveitina, en það er einmitt hljómsveitin sem myndin Rip!: A Remix Manifesto snýst um, og því kannski sérstaklega viðeigandi hlustunarefni.

Á vefsíðu Kaffi Zimsen er að finna prýðilegt kort fyrir þá sem vita ekki hvar staðinn er að finna.

Stutt summa:

Hvað: Software Freedom Day 2009 á Íslandi
Hvar: Kaffi Zimsen
Hvenær: Laugardaginn 19. September, kl.18-22

Við hjá FSFÍ vonumst til að sjá sem flesta, enda rík ástæða til að fagna, en þó árið 2008 hafi verið gott fyrir stafrænt frelsi á Íslandi, verður 2009 líklega enn betra! :-)