Í ár stefnum við að því að halda árlegu ráðstefnu FSFÍ um stafrænt frelsi í þriðja sinn en þó með breyttu sniði. Í ár verður ráðstefnan nefnilega brotin upp í vinnustofu og ráðstefnu með um hálfs mánaðar millibili.

FSFÍ kynnir Reykjavík Digital Freedom Workshop og Reykjavík Digital Freedom Conference.

Reykjavík Digital Freedom Workshop

Helgina 13. – 14. nóvember verður haldin vinnustofa um stafrænt frelsi í fyrsta skipti. Á vinnustofunni verður leitast við að kynna áhugasömum hin ýmsu íslensku frjálsu verkefni sem unnið er að á Íslandi (eða sem tengjast Íslandi). Vinnustofurnar fela í sér óformlegar kynningar (stutta fyrirlestra), kennslu og verkefnavinnu. Við vonumst til þess að vinnustofan geti hjálpað frjálsum, íslenskum verkefnum að þróast áfram sem og vakið áhuga fleiri framtíðarþátttakenda á verkefnunum.

Vinnustofurnar verða 2, 4 eða 8 tímar með meiri áherslu á styttri vinnustofur svo þátttakendur fái tækifæri til að kynnast fleiri verkefnum.

Sem dæmi um vinnustofur sem gætu verið haldnar helgina 13. – 14. nóvember eru:

 • Stafrænt frelsi í íslenskum skólum
 • OpenStreetMap kortagerð og notkun
 • is.wikipedia.org
 • IMMI (Icelandic Modern Media Initiative)
 • Þýðingar á frjálsum hugbúnaði
 • Creative Commons Iceland
 • Hakkavélin (íslenskt hackerspace)

FSFÍ auglýsir eftir aðilum sem vilja taka að sér að sjá um vinnustofurnar sem stungið er upp á hér fyrir ofan eða einhverjum sem hafa áhuga á því að hafa aðra vinnustofu og sjá um hana. FSFÍ er opið fyrir öllum hugmyndum og vill hafa Reykjavík Digital Freedom Workshop eins fjölbreytt og mögulegt er.

Nú þegar hefur ein vinnustofa verið ákveðin en það er Nordic Perl Workshop 2010 sem halda átti í vor en var lögð niður vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Sú vinnustofa verður heill dagur (þann 14. nóvember) og er skipulögð af Dananum Jonas Brømsø Nielsen.

Endilega sendið okkur hugmyndir að vinnustofum sem þið viljið vera með eða óskir um að fá að halda vinnustofurnar sem við höfum stungið upp á með því að senda okkur póst á stjorn (hjá) fsfi.is. Látið okkur þá vita í sama pósti hversu löng þið viljið að vinnustofan sé (2, 4 eða 8 klukkutímar).

Skilafrestur innsendinga er sunnudagurinn 31. október.

Stjórn FSFÍ birtir þær vinnustofur sem verða haldnar eins fljótt og auðið er eftir að skilafrestur rennur út og ekki seinna en viku síðar.

Við hlökkum til að gera þessa helgi að skemmtilegri og áhugasamri vinnuhelgi fyrir stafrænt frelsi.

Reykjavík Digital Freedom Conference

Ráðstefnan um stafrænt frelsi á Íslandi verður haldin, líkt og í fyrra, þann 1. desember.

FSFÍ vinnur nú hörðum höndum að skipulagningu ráðstefnunnar og hefur ákveðið tvö þemu fyrir ráðstefnuna:

 • Stafrænt frelsi í opinberum rekstri
  • Hvernig hefur stafrænt frelsi hjálpað opinberum aðilum á Íslandi og hvert er hlutverk stafræns frelsis í framtíðinni?
 • Þekkingin er á Íslandi
  • Það er til fullt af frjóum, frelsismeðvituðum Íslendingum. Hvernig hefur Ísland tekið þátt í auknu stafrænu frelsi? Kynning á íslenskum frjálsum verkefnum ásamt erlendum verkefnum sem Íslendingar taka þátt í.

FSFÍ auglýsir eftir íslenskum fyrirlesurum sem vilja halda 20 mínútna fyrirlestra um sín hjartans mál sem tengjast ofangreindum þemum.

Sendið stjórn FSFÍ tölvupóst (á stjorn (hjá) fsfi.is) með titli fyrirlestrar og stuttum útdrætti ásamt lýsingu á ykkur. Þið getið einnig sent okkur póst ef þið vitið af einhverjum sem ykkur þætti áhugavert að heyra í sem við getum þá sett okkur í samband við.

Skilafrestur innsendinga er sunnudagurinn 7. nóvember.

Til þess að ráðstefnan gangi vel fyrir sig auglýsir FSFÍ eftir aðilum sem vilja aðstoða FSFÍ við skipulagningu á ráðstefnunni. Endilega látið okkur vita ef þið viljið aðstoða okkur við að fullkomna ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni í fyrra veitti FSFÍ í fyrsta skipti frelsisverðlaun FSFÍ. Verðlaunin hlaut Bjarni Rúnar Einarsson fyrir framlag sitt til frjálsa samfélagsins í gegnum árin. Frelsisverðlaunin verða veitt í annað sinn á ráðstefnunni þann 1. desember 2010 og FSFÍ leitar nú að tilnefningum til frelsisverðlauna FSFÍ 2010. Ef þið vitið af einhverjum aðila sem hefur unnið aðdáunarvert starf til að auka stafrænt frelsi á Íslandi endilega látið okkur vita með því að senda tölvupóst á stjorn (hjá) fsfi.is og
tilgreinið stuttlega af hvern þið tilgreinið og af hverju.

Skilafrestur tilnefninga rennur út sunnudaginn 7. nóvember.

Stjórn FSFÍ tilkynnir dagskrá ráðstefnunnar eins fljótt og auðið er eftir að skilafrestur rennur út og ekki seinna en viku síðar.

Við hlökkum til að sjá ykkur á vinnustofu stafræns frelsis, helgina 13.-14. nóvember og ráðstefnu um stafrænt frelsi á fullveldisdaginn 1. desember og vonumst til að við getum í sameiningu gert báða viðburðina eftirminnilega og skemmtilega.

Mikilvægar dagsetningar

 • Vinnustofa um stafrænt frelsi:
  • Helgin 13.-14. nóvember
 • Ráðstefna um stafrænt frelsi:
  • Miðvikudagurinn 1. desember
 • Skilafrestur um tillögur að vinnustofum og stjórn vinnustofa:
  • Sunnudagurinn 31. október
 • Skilafrestur fyrirlesara sem vilja halda fyrirlestur á ráðstefnunni:
  • Sunnudagurinn 7. nóvember
 • Skilafrestur tilnefninga til frelsisverðlauna FSFÍ árið 2010:
  • Sunnudagurinn 7. nóvember

Leave a Reply

 • (will not be published)