Félag um stafrænt frelsi á Íslandi

FSFÍ hefur það að markmiði að sjálfsögðum réttindum Íslendinga sé viðhaldið í stafrænum heimi. Félagið hefur kynnt, hlúið að og verndað stafrænt frelsi frá árinu 2008, en áhersluatriði FSFÍ er að tækni, menning, samskipti og þekking okkar séu frjáls.

Skráðu þig á póstlista FSFÍ

FSFÍ heldur úti tveimur tölvupóstlistum: tilkynningalista fyrir tilkynningar um viðburði á vegum félagsins og umræðulista fyrir umræður um málefni félagsins.


Frjáls menning

Tilfinningar samfélagsins. Stafrænn heimur opnar tækifæri til þess að upplifa list af meiri krafti en áður. Möguleikinn til að njóta, skapa og dreifa menningu er gífurlegur og takmarkanir á þessum möguleika rænir okkur samtímamenningunni.

Lögin eiga að hvetja til sköpunar en ekki draga úr henni. FSFÍ þykir slæmt að höfundarnir sjálfir geti ekki opnað fyllilega fyrir aðgang og nýtingu á verkum sínum. Einokun á menningu skaðar allt samfélagið. FSFÍ hefur áhyggjur af því að besta lausnin til að koma í veg fyrir stöðnun samfélagsins sé að fremja lögbrot.

Frjáls tækni

Gangverk samfélagsins. Samfélag og velferð okkar byggir í auknum mæli á tækni. Óeðlilegar takmarkanir og höft geta markað upphaf nýrrar stéttaskiptingar — þar sem þeir sem móta tæknina hafa meira vald en þeir sem mega bara nota hana.

Forvitni hjálpar okkur að skilja heiminn. FSFÍ telur að tækninni eigi að fylgja möguleiki á að nota hana að vild, skilja hvernig hún virkar, breyta henni eða lagfæra og miðla henni til annarra. Við eigum að geta bjargað okkur sjálf. Að mati FSFÍ skilur það á milli þess hvort við séum neytendur í samfélaginu eða þátttakendur í því.

Frjáls þekking

Þroski samfélagsins. Stafræn tækni hefur rutt úr vegi hindrunum við miðlun og öflun hvers kyns upplýsinga og gagna. Það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þekking mannkyns sé aðgengileg öllum sem á annað borð hafa aðgang að hinum stafræna heimi.

Framþróun byggir á fyrri vitneskju. FSFÍ berst gegn takmörkun á aðgangi, meðhöndlun og dreifingu þekkingar. Slík takmörkun hamlar samfélaginu á tímum þar sem við gætum tekið hraðari skref inn í framtíðina. FSFÍ fer fram á að vitneskja samfélagsins nýtist okkur öllum frekar en að vera forréttindi fárra.

Frjáls samskipti

Rödd samfélagsins. Ein af forsendum lýðræðissamfélags er ótakmörkuð og óþvinguð samskipti. Í stafrænum heimi er auðvelt að hamla, breyta og fylgjast með samskiptum, jafnvel án þess að viðkomandi aðilar taki eftir því.

Frjálst Internet er hornsteinn stafrænna samskipta. FSFÍ er mótfallið hverskyns læsingum, lokunum, innihaldsbreytingum, ritskoðun og eftirliti með samskiptum. FSFÍ styður þess í stað tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífsins og aðgengi fólks að Netinu, mikilvægasta miðli samfélagsins í dag.